Frétt

02. mars 2018

Ársreikningur Stefnis 2017 - Sterkt rekstrarár að baki

Hagnaður Stefnis á árinu 2017 nam 1.680 milljónum króna samkvæmt ársreikningi félagsins. Eigið fé félagsins í lok ársins nam rúmum 3,2 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki er 81,0% en samkvæmt lögunum má hlutfallið ekki vera lægra en 8,0%. Afkoma félagsins er sú besta í rúman áratug. Stefnir er stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins með um 350 milljarða króna í virkri stýringu.

Flóki Halldórsson, framkvæmdastjóri Stefnis:

„Afkoma félagsins var mjög góð á liðnu ári. Félagið er fjárhagslega sterkt og hefur fjölbreytt úrval sjóða í rekstri. Á síðasta ári náðust mikilvægir áfangar í stærri verkefnum á sviði framtaksfjárfestinga og félagið nýtur góðs af stórgóðum árangri þeirra fjárfestingarverkefna. Áhersla félagsins á uppbyggingu sérhæfðra fjárfestinga á síðustu árum skilar sér í fjölbreyttari tekjustoðum og hærri tekjuframlegð. Vegna innleiðingar á nýju regluverki á fjármálamarkaði, sem nefnist MiFID II hefur töluverð breyting orðið á meðferð rekstrartekna tengdra aðila s.s. móðurfélags og skýrir það einnig auknar tekjur félagsins. Það er einnig ánægjulegt að sjá að hlutdeildarskírteinishöfum fjölgar á milli ára og eru þeir nú tæplega ellefu þúsund talsins. Einstaklingum sem nýta sér sjóði Stefnis til reglubundins sparnaðar er sífellt að fjölga. Ljóst er að aukin áhersla á rafrænar dreifileiðir, aðgengi og ítarleg upplýsingagjöf á heimasíðu Stefnis hefur ýtt undir áhuga á sjóðum félagsins. Ég er afskaplega stoltur af árangri félagsins og þeirri góðu vinnu sem starfsfólk hefur skilað á síðustu misserum.“

Stefnir hefur verið leiðandi í framtaksfjárfestingum og sérhæfðum afurðum á Íslandi um árabil. Framtakssjóðurinn SÍA III lauk annarri fjárfestingu sinni með kaupum á 70% hlut í Gámaþjónustunni hf. og SÍA II slhf. afhenti hluthöfum eignarhluti sjóðsins í Skeljungi hf. í nóvember 2017. Þar með lauk fjögurra ára árangursríkri aðkomu sjóðsins að Skeljungi.

Sérstaða Stefnis í stýringu erlendra hlutabréfasjóða er umtalsverð meðal innlendra fjármálafyrirtækja. Félagið hefur um tveggja áratuga skeið rekið erlenda hlutabréfasjóði með góðum árangri. Eftir sameiningu KMS Global Equity við KF Global Value varð til langstærsti alþjóðlegi hlutabréfasjóður í stýringu innlendra aðila. Stærð sjóðsins í árslok 2017 var 205 m EUR, eða jafngildi 25,4 milljarða ISK. Árangur sjóðsins hefur verið framúrskarandi góður á síðustu árum og sem dæmi um það var ávöxtun sjóðsins 12,1% á árinu 2017, sem er 6,6 prósentustigum umfram ávöxtun heimsvísitölu hlutabréfa (MSCI). Ávöxtun annarra sjóða var í flestum tilvikum viðunandi og með hliðsjón af viðmiðunarvísitölum og samkeppnissjóðum var ávöxtunin í mörgum tilvikum góð. Stefnir rekur nokkra af stærstu sjóðum landsins meðal blandaðra sjóða og var ávöxtun þeirra á árinu vel viðunandi. Á árinu var stofnaður nýr fjárfestingarsjóður, Stefnir – Sparifjársjóður, sem fjárfestir í innlánum, víxlum og styttri skuldabréfum. Viðskiptavinir tóku sjóðnum vel og var stærð hans orðin rúmir 5,4 milljarðar króna í árslok 2017.

Upplýsingar um ársreikning félagsins fyrir 2017 má nálgast hér

 

Til baka

Fleiri fréttir

26.maí 2020

Theodór Sölvi ráðinn í hlutabréfateymi Stefnis

Theodór Sölvi Blöndal hefur verið ráðinn sem sérfræðingur í erlenda hlutabréfateymi Stefnis.

27.mars 2020

Ný stjórn kosin á aðalfundi Stefnis

Á aðalfundi Stefnis þann 27. mars 2020 voru gerðar breytingará samþykktum Stefnis hf. sem fela í sér að stjórn félagsins er nú skipuð þremur einstaklingum í...

13.mars 2020

Kristbjörg M. Kristinsdóttir með erindi um virkt eignarhald og meðferð umboðsatkvæða hjá Stefni á ráðstefnu Iceland SIF

Kristbjörg M. Kristinsdóttir, rekstrarstjóri Stefnis var með erindi á ráðstefnu Iceland SIF um virkt eignarhald á Íslandi sem var haldin á Grand Hóteli 4. mars...

Þessi síða notar vafrakökur. Lesa meira