Áhætta
Stefnir rekur fjölmarga verðbréfa og sérhæfða sjóði fyrir almenna fjárfesta. Um rekstur verðbréfasjóða fer samkvæmt lögum nr. 116/2021 um verðbréfasjóði og um rekstur sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta fer skv. lögum nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Þá býður félagið einnig upp á úrval sérhæfðra sjóða sem ekki eru markaðssettir til almennings.
Verðbréfasjóðir og sérhæfðir sjóðir fyrir almenna fjárfesta eru starfsleyfisskylt form sjóða um sameiginlega fjárfestingu. Rekstrarfélögum ber að setja sjóðunum reglur sem þurfa að hljóta staðfestingu Fjármálaeftirlitsins áður en rekstur sjóðanna getur hafist. Eftirlit með slíkum sjóðum er ítarlegt og mjög virkt, hvort heldur sem er vegna eftirlitsferla rekstrarfélagsins eða vegna opinbers eftirlits Fjármálaeftirlitsins.
Allir verðbréfasjóðir og sérhæfðir sjóðir fyrir almenna fjárfesta eru reknir sem sjóðsdeildir innan rekstrarfélagsins og eru sjóðirnir því ekki sjálfstæðir lögaðilar. Stefnir hf. kemur fram fyrir hönd sjóðanna og ráðstafar hagsmunum þeirra í umboði hlutdeildarskírteinishafa.
Öll viðskipti með fjármálagerninga, þ.m.t. hlutdeildarskírteini sjóðsins, eru áhættusöm. Ávöxtun hlutdeildarskírteina sjóðsins kann að sveiflast mjög frá einum tíma til annars. Þá getur verðmæti hlutdeildarskírteina rýrnað og fjárfestar tapað fjárfestingu sinni að hluta eða öllu leyti.
Áhættuvísir
Stefnir hf. hefur skipt verðbréfa- og sérhæfðum sjóðum fyrir almenna fjárfesta í rekstri félagsins í sjö flokka byggt á samanteknum áhættuvísi í samræmi við II. viðauka framseldrar reglugerðar (ESB) 2017/653 og byggir hún á flökti á ársgrundvelli sem samsvarar vágildi (e. value-at-risk (VaR)) við öryggisstig 97,5% á ráðlögðum fjárfestingartíma. Flokkur 1 ber minnstu sveiflurnar í ávöxtun en flokkur 7 mestu sveiflurnar. Flokkun sjóðs getur breyst ef sveiflur undirliggjandi fjármálagerninga taka breytingum.
Mælikvarðinn byggir eingöngu á sögulegum sveiflum í ávöxtun. Ávöxtun í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um ávöxtun í framtíð og tekur ekki mið af þeim ýmsu áhættum sem verðbréfa- og sérhæfðir sjóðir fyrir almenna fjárfesta kunna að búa við í rekstri sínum. Þá kann flokkunin að breytast fyrirvaralaust.
Áhættumælikvarðinn er ekki almenn lýsing á þeirri áhættu sem fylgir fjárfestingu í hlutdeildarskírteinum sjóða. Öllu heldur er um að ræða tölfræðilega, hlutbundna lýsingu á eignum þeirra fjölmörgu áhættuþátta sem geta verið til staðar við fjárfestingu í slíkum fjármálagerningum. Frekari umfjöllun um helstu áhættuþætti er að finna í útboðslýsingu hvers sjóðs. Bent er á að ekki er tryggt að sögulegar sveiflur í ávöxtun sjóðs hafi forspárgildi um framtíðarsveiflur í ávöxtun hans. Jafnframt er bent á að sjóðir í flokki 1 eru ekki áhættulaus fjárfesting og engin trygging er fyrir ávöxtun upphaflegrar fjárfestingar eða fullrar innheimtu hennar.
Flokkur | Sjóður |
---|---|
Flokkur 1 | Stefnir - Lausafjársjóður hs. Stefnir - Sparifjársjóður hs. |
Flokkur 2 | Stefnir - Skuldabréfaval hs. Stefnir - Vaxtasjóður hs. Stefnir - Sjálfbær skuldabréf hs. Stefnir - Ríkisbréfasjóður óverðtryggður hs. Stefnir - Ríkisskuldabréf verðtryggð hs. Stefnir - Ríkisverðbréfasjóður millilangur hs. Stefnir Ríkisverðbréfasjóður langur hs. Eignaval A hs. Eignaval B hs. |
Flokkur 3 | Stefnir - Grænaval hs. Eignaval C hs. |
Flokkur 4 | Stefnir - Samval hs. Stefnir - Arðgreiðslusjóður hs. Stefnir - Innlend hlutabréf hs. Stefnir - Innlend hlutabréf Vogun hs. Stefnir - Scandinavian Fund - ESG hs. Stefnir - Sustainable Arctic Fund hs. Eignaval - Hlutabréf hs. Eignaval - Erlent hs. Katla Fund - Global Equity |
Flokkur 5 | |
Flokkur 6 | |
Flokkur 7 |
Upplýsingarnar hér fyrir ofan eru réttar m.v. 31. mars 2024.
Áhætta tengd fjármálagerningum
Margvísleg atriði geta valdið verðlækkun á fjármálagerningum sem sjóðurinn hefur fjárfest í og þar með á gengi hlutdeildarskírteina í sjóðnum, s.s. ófyrirséðir atburðir og almennt efnahagsástand. Einnig getur ný eða breytt löggjöf Alþingis haft áhrif á gengi hlutdeildarskírteina, s.s. breytingar á skattalögum eða á lögum um auðlindargjald í sjávarútvegi. Þá má og geta svokallaðrar seljanleikaáhættu, þ.e. áhættan á að ekki reynist unnt að selja verðbréf þegar vilji stendur til.
Áhættan birtist bæði með þeim hætti að markaðurinn geti ekki tekið við því magni sem til stendur að selja þar sem kaupendur vantar, en einnig er verðmyndun oft með þeim hætti að verulegur munur er á kaup- og sölugengi og því næst ekki sá árangur við sölu sem vænst hafði verið. Því dreifðara sem safn verðbréfa er, því minni áhætta er almennt talin fólgin í því.
Afleiðunotkun
Sjóðir geta haft heimild til að binda fé sitt í afleiðum samkvæmt þeim skilyrðum sem sett eru samkvæmt lögum nr. 116/2021, sbr. einkum 5. og 6. tl. 2. mgr. 64. gr. og 66. gr. laganna. Viðskipti með afleiður geta dregið úr áhættu sjóða, s.s. endurfjárfestingar- og vaxtaáhættu.
Afleiður sjóða geta verið í formi framvirkra samninga. Í tilviki framvirkra samninga skuldbinda sjóðir sig til þess að eiga viðskipti með fjármálagerninga á fyrirfram ákveðnu verði og tíma í framtíðinni. Þannig myndast skuldbinding í sjóðum vegna þessara framtíðar viðskipta. Verðmæti framvirka samningsins sveiflast svo með breytingu á gengi undirliggjandi eignar og hefur þannig áhrif á innra virði sjóða.
Aðrar áhættur tengdar fjárfestingu í sjóðum
1. Markaðsáhætta vísar til þeirra áhrifa sem hugsanlegar breytingar á gengi fjármálagerninga getur haft á gengi sjóða. Fjármálagerningar í eðli sínu sveiflast í verði og getur gengi þeirra bæði hækkað sem og lækkað sem skilar sér í markaðsáhættu fyrir sjóðsfélaga.
2. Greiðsluáhætta. Þar sem sjóðir munu kaupa og selja fjármálagerninga af þriðja aðila er sú hætta fyrir hendi að kaupandi greiði ekki fyrir seld bréf eða að seljandi afhendi ekki bréf sem sjóðurinn hefur keypt.
3. Vörslu- og uppgjörsáhætta. Rekstrarfélagið felur vörslufyrirtæki vörslu allra fjármálagerninga sjóða. Sú áhætta er fyrir hendi að slíkir fjármálagerningar glatist vegna gjaldþrots vörsluaðila, vanrækslu vörsluaðila, misnotkun hans eða svika. Sú hætta er einnig fyrir hendi að mistök eigi sér stað við uppgjör sjóða.
4. Frammistöðuáhætta. Markmið sjóða getur verið að ná betri árangri en fyrirfram skilgreind viðmiðunarvísitala. Þar sem stýring sjóða telst virk getur árangur sjóða verið betri eða verri en áðurnefnd viðmiðunarvísitala og felur það í sér frammistöðuáhættu.
5. Áhætta höfuðstóls. Fjármálagerningar í eðli sínu geta sveiflast í verði og höfuðstóll getur því rýrnað yfir skemmri eða lengri tíma vegna sveiflna á þeim fjármálagerningum sem sjóðir fjárfesta í á hverjum tíma.
6. Ytri ástæður á borð við stríð, hryðjuverk og stjórnmálalegan óstöðugleika eða annað því tengt geta haft áhrif á gengi fjármálagerninga og telst því áhættuþáttur fyrir sjóðsfélaga.
Fyrirvari vegna áhættu
Um verðbréfasjóði gilda að sumu leyti aðrar reglur en gilda um sérhæfða sjóði fyrir almenna fjárfesta, t.d. varðandi fjárfestingarheimildir og innlausnarskyldu. Fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða eru takmarkaðri. Sérhæfðir sjóðir fyrir almenna fjárfesta teljast vera áhættusamari fjárfesting en verðbréfasjóður. Meiri áhætta sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta er fólgin í rýmri fjárfestingarheimildum sem geta m.a. leitt til minni áhættudreifingar en í verðbréfasjóði. Vakin er sérstök athygli á að almennt fylgir áhætta fjárfestingu í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta, t.d. getur fjárfesting rýrnað eða tapast að öllu leyti. Fyrri ávöxtun sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta gefur ekki vísbendingu um framtíðar ávöxtun þeirra.
Nánari upplýsingar um framangreint má nálgast í útboðslýsingu eða lykilupplýsingablaði sjóða á heimasíðu Stefnis.
Samkvæmt ákvæðum laga nr. 98/1999 njóta innistæður sjóða um sameiginlega fjárfestingu ekki verndar hjá Tryggingarsjóði innistæðueigenda. Upplýsingar um sjóðinn er að finna á www.tryggingarsjodur.is.
Rekstrarfélag sjóðanna er Stefnir hf., sem er sjálfstætt dótturfélag Arion banka með starfsleyfi sem rekstrarfélag verðbréfasjóða.