Frétt

08. júní 2011

SF II kaupir ríflega helmingshlut í Sjóklæðagerðinni hf.

SF II kaupir ríflega helmingshlut í Sjóklæðagerðinni hf.
SF II, félag í rekstri Stefnis hf., hefur keypt ríflega helmingshlut í Sjóklæðagerðinni hf. SF II er í eigu SÍA I, Bjarneyjar Harðardóttur og Helga Rúnars Óskarssonar, forstjóra Sjóklæðagerðarinnar. Sigurjón Sighvatsson mun áfram fara fyrir tæpum helmingshlut í félaginu.

Sigurjón fór fyrir kaupum á Sjóklæðagerðinni árið 2004. Frá þeim tíma hefur velta félagsins þrefaldast og útflutningur rúmlega fjórfaldast. Afkoma félagsins hefur batnað í takt við veltu félagsins þrátt fyrir þrengingar í íslensku efnahagslífi. ,,Félagið hefur búið að frábærum hópi starfsfólks sem hefur getað byggt á sterkri arfleifð með höfuðáherslu á hönnun og gæði. Þau gildi verða leiðarljós félagsins áfram, en vegna aukinna umsvifa og anna við aðalstarf mitt við framleiðslu kvikmynda var ljóst að styrkja þurfti bæði hluthafahópinn og yfirstjórn félagsins. Ég veit að Helgi, Bjarney og fjárfestar sem með þeim eru verða félaginu mikill styrkur og hugmyndir okkar um framtíð þess og framgang fara algerlega saman og ég hlakka því til samstarfsins, “ segir Sigurjón Sighvatsson. Hann hefur verið ötull við að kynna fyrirtækið og vörumerkið 66°NORÐUR á erlendum vettvangi meðal annars í samvinnu við þekkta leikara og leikstjóra og með því að koma vörum félagsins á framfæri í bæði kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.

Sjóklæðagerðin er eitt elsta framleiðslufyrirtæki landsins, stofnað árið 1926 og fagnar því 85 ára starfsafmæli í ár. Félagið hannar og framleiðir hágæða útivistarfatnað undir merkinu 66°NORÐUR auk þess að framleiða vinnufatnað, m.a. fyrir sjómenn, iðnaðarmenn, slökkvilið og lögreglu. Á Íslandi rekur fyrirtækið fjölda útivistarverslana, vinnufataverslana auk verslana undir vörumerkjum Rammagerðarinnar, Iceland giftstore. Vörur Sjóklæðagerðarinnar eru seldar í meira en 500 verslunum í 15 löndum og starfsmenn félagsins eru um 300.

Stærsti eigandi SF II er SÍA I sem er fagfjárfestasjóður í rekstri Stefnis hf. Stefnir er stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins með um 300 milljarða króna í virkri stýringu. Sjóðfélagar SÍA I eru margir af stærstu lífeyrissjóðum landsins auk annarra öflugra fagfjárfesta. Auk fjárfestingarinnar í Sjóklæðagerðinni hefur SÍA I ásamt meðfjárfestum keypt kjölfestuhlut í Högum hf. og kaup á meirihluta í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. eru á lokastigi. Sjóðstjórar SIA I, þeir Sigþór Jónsson og Benedikt Ólafsson, segja „að stefna sjóðsins sé að fjárfesta í vel reknum félögum með öflugum stjórnendum. Sjóklæðagerðin uppfyllir þau markmið algerlega og á að auki mikla vaxtarmöguleika í náinni framtíð“.

Nánari upplýsingar veita:

Gunnar Jónsson 8204609
Sigþór Jónsson 8566954
Til baka

Fleiri fréttir

09.janúar 2025

Framtakssjóðurinn SÍA IV kaupir meirihluta hlutafjár Internets á Íslandi hf.

Samkomulag hefur náðst á milli hluthafa Internets á Íslandi hf. (ISNIC) og SÍA IV slhf., framtakssjóðs í rekstri Stefnis og að meirihluta í eigu lífeyrissjóða...

27.desember 2024

Engin upphafsþóknun af kaupum í sjóðum til og með 10. janúar

Engin upphafsþóknun er við kaup í sjóðum Stefnis frá 27. desember 2024 til og með 10. janúar 2025. Afslátturinn af þóknun gildir við kaup sem eiga sér stað í...

21.nóvember 2024

Stefnir leitar að áhættustjóra

Stefnir leitar að metnaðarfullum og ábyrgum einstaklingi í starf áhættustjóra með reynslu og þekkingu á verðbréfamörkuðum innlendum sem erlendum.