Frétt

13. desember 2013

Félag í rekstri Stefnis kaupir Skeljung

Félag í rekstri Stefnis kaupir Skeljung

Kaup SF IV slhf., félags í rekstri Stefnis hf., á öllu hlutafé í Skeljungi og færeyska olíufélaginu P/F Magn hafa nú hlotið samþykki viðeigandi eftirlitsstofnana og munu nýir eigendur taka við rekstri félaganna í janúar næstkomandi. Sátt var gerð við Samkeppniseftirlitið sem ætlað er að tryggja sjálfstæði Skeljungs og mun hún verða birt á næstu vikum.

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka var ráðgjafi kaupenda í viðskiptunum. Kaupin voru leidd af framtakssjóðnum SÍA II, sem er í rekstri Stefnis, en meðal annarra hluthafa eru lífeyrissjóðir, aðrir stofnanafjárfestar og einstaklingar. Nánar verður greint frá hluthöfum SF IV þegar nýir eigendur taka við félaginu.

Benedikt Ólafsson, forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni:

„Skeljungur er öflugt og vel rekið fyrirtæki og nýir eigendur munu byggja á þeim trausta grunni sem fyrir er. Með því að ganga samhliða frá kaupum á öllu hlutafé í P/F Magn og sameina félögin er enn fleiri stoðum skotið undir reksturinn auk þess sem töluverður hluti tekna verður í erlendri mynt. Við teljum því sameinað félag vera álitlegan fjárfestingarkost og fjölmörg tækifæri þegar horft er fram á veginn.“

Svanhildur Vigfúsdóttir, stjórnarformaður Skeljungs:

„Það er okkur mjög ánægjulegt að Skeljungur sé kominn á þann stað að fagfjárfestar sýni félaginu áhuga, séu reiðubúnir að fjárfesta í því og styðja við áframhaldandi enduruppbyggingu þess. Þegar við komum að félaginu, seinnihluta árs 2008 stóð það mjög völtum fótum og ljóst að tíðar breytingar á eignarhaldi og sviptingar í efnahagsumhverfinu höfðu bitnað illa á félaginu, sem var í raun orðið tæknilega gjaldþrota á þessum tíma. Á undanförnum fimm árum hefur öflugur hópur stjórnenda og starfsmanna unnið hörðum höndum að því að byggja félagið upp á nýjan leik. Rekstur þess hefur batnað til muna og skuldastaðan er aftur orðin viðráðanleg.

Skeljungur er gamalt og rótgróið félag sem á sér langa sögu og hefur stór hópur fólks komið að félaginu með einum eða öðrum hætti í gegnum árin. Við höfum fundið það í gegnum aðkomu okkar að margir bera sterkar taugar til félagsins og er það okkar von að félagið sé nú komið á þann stað að allir Skeljungsmenn geti verið stoltir af. Við teljum þetta rétta tímapunktinn til að koma félaginu í hendurnar á öflugum hópi fjárfesta sem er vel í stakk búinn að styðja við áframhaldandi uppbyggingu félagsins.“

Um Skeljung

Skeljungur var stofnaður árið 1928 og rekur um 100 afgreiðslustöðvar undir vörumerkjunum Orkan og Shell. Hjá fyrirtækinu starfa um 300 starfsmenn. Þá selur félagið fyrirtækjum um allt land olíu og tengdan varning. Félagið á um 35 fasteignir sem eru samtals um 23.000 fermetrar.

Um Magn

P/F Magn var stofnað af Shell í Danmörku árið 1953. Hjá fyrirtækinu starfa um 140 starfsmenn. Magn rekur 11 bensínafgreiðslustöðvar í Færeyjum auk þess að sinna fyrirtækjamarkaði og selja gasolíu til húshitunar í Færeyjum.

Um SÍA II

SÍA II er framtakssjóður í rekstri Stefnis hf. Hluthafar SÍA II samanstanda af lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og fagfjárfestum. Framtakssjóðir á vegum Stefnis hafa verið leiðandi í framtaksfjárfestingum á Íslandi og hafa, ásamt meðfjárfestum, fjárfest fyrir yfir 20 milljarða í óskráðum félögum frá árinu 2011.

Til baka

Fleiri fréttir

09.janúar 2025

Framtakssjóðurinn SÍA IV kaupir meirihluta hlutafjár Internets á Íslandi hf.

Samkomulag hefur náðst á milli hluthafa Internets á Íslandi hf. (ISNIC) og SÍA IV slhf., framtakssjóðs í rekstri Stefnis og að meirihluta í eigu lífeyrissjóða...

27.desember 2024

Engin upphafsþóknun af kaupum í sjóðum til og með 10. janúar

Engin upphafsþóknun er við kaup í sjóðum Stefnis frá 27. desember 2024 til og með 10. janúar 2025. Afslátturinn af þóknun gildir við kaup sem eiga sér stað í...

21.nóvember 2024

Stefnir leitar að áhættustjóra

Stefnir leitar að metnaðarfullum og ábyrgum einstaklingi í starf áhættustjóra með reynslu og þekkingu á verðbréfamörkuðum innlendum sem erlendum.