Rekstrarform
Stefnir rekur fjölmarga verðbréfa og fjárfestingarsjóði. Þá rekur félagið fjölmarga sérhæfða sjóði sem ekki eru markaðssettir gagnvart almenningi. Um rekstur sjóðanna fer samkvæmt lögum nr. 128/2011 og 45/2020.
Verðbréfa og fjárfestingarsjóðir eru leyfisskylt form sjóða um sameiginlega fjárfestingu. Rekstrarfélögum ber að setja sjóðunum reglur sem þurfa að hljóta staðfestingu Fjármálaeftirlitsins áður en rekstur sjóðanna getur hafist. Eftirlit með slíkum sjóðum er ítarlegt og mjög virkt, hvort heldur sem er vegna eftirlitsferla rekstrarfélagsins eða vegna opinbers eftirlits Fjármálaeftirlitsins.
Allir verðbréfa og fjárfestingarsjóðir eru reknir sem sjóðsdeildir innan rekstrarfélagsins og eru sjóðirnir því ekki sjálfstæðir lögaðilar. Stefnir hf. kemur fram fyrir hönd sjóðanna og ráðstafar hagsmunum þeirra í umboði hlutdeildarskírteinishafa. Nánari upplýsingar um einstaka sjóði í rekstri félagsins má nálgast á sjóðasíðu.
Verðbréfasjóðir eru söfn verðbréfa, þ.e. hlutabréfa, skuldabréfa og
annarra auðseljanlegra verðbréfa. Íslenskir verðbréfasjóðir starfa samkvæmt
lögum um verðbréfasjóði nr. 128/2011. Markmið laganna er að gera verðbréfasjóði
að öruggum kosti fyrir þá sem eiga í þeim hlutdeildarskírteini. Samkvæmt
lögunum eru allir sjóðir reknir af rekstarfélaginu Stefni sem er sjálfstæður
lögaðili. Öll umsjá og varsla verðbréfa er í höndum Arion banka hf .
Vörslufélagið sér meðal annars um að gengisútreikningar, sala, útgáfa og
innlausn hlutdeildarskírteina fari fram samkvæmt lögum og samþykktum sjóða.
Fjárfestingarstefna verðbréfasjóða er ákveðin fyrirfram og geta fjárfestar þannig kynnt sér heimildir sjóðstjóra áður en til fjárfestingar kemur. Fjárfestingarstefnu verðbréfasjóðs verður ekki breytt nema að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins sem hefur eftirlit með starfsemi rekstrarfélagsins og þar með sjóðanna.
Verðbréfasjóðir hafa notið mikilla vinsælda á undanförnum árum enda kostir þeirra nokkrir umfram einstök bréf.
- Áhættudreifing er meiri þar sem eignasöfn eru vel dreifð
- Hægt að kaupa og selja hlutdeildarskírteini að vild án þess að bíða eftir ásættanlegu verði í einstök bréf
- Heimildir til fjárfestinga á óskráðum mörkuðum eru takmarkaðar af ofangreindum lögum sem eykur seljanleika bréfanna og dregur úr vanskila- og tapsáhættu
- Ekki þarf að hafa áhyggjur af gjalddögum eða endurfjárfestingu
- Hægt að fjárfesta fyrir lægri fjárhæðir en í einstökum bréfum
Þrátt fyrir að verðbréfasjóðir fjárfesti í vel dreifðu eignasafni þá er hins vegar alltaf ákveðin áhætta fyrir hendi sem ekki er hægt að eyða en þó hægt að draga úr ef kunnáttan er fyrir hendi. Helstu þættir sem geta haft áhrif á verðmæti hlutdeildarskírteina í sjóðum er nefndir hér fyrir neðan.
Helstu áhættuþættir:
- Gengisáhætta
Verðbréf geta lækkað af ýmsum ástæðum. Hlutabréf geta lækkað í verði vegna almennra lækkana á hlutabréfamörkuðum eða vegna sérstakra aðstæðna. Skuldabréf lækkar í verði ef ávöxtunarkrafa hækkar, t.d. við vaxtahækkanir Seðlabanka eða vegna mikils framboðs. - Verðbólguáhætta
Óverðtryggð bréf bera ákveðið álag ofan á verðtryggð bréf vegna verðbólguvæntinga. Ef álagið er minna en verðbólguvæntingar gefa til kynna getur það leitt til hækkunar á ávöxtunarkröfu. Til að verja sig gagnvart verðbólgu er skynsamlegast að fjárfesta í verðtryggðum bréfum. - Seljanleikaáhætta
Erfitt gæti reynst að selja verðbréf ef þau er ekki á skipulögðum markaði. Hlutabréf skráð á Aðallista Kauphallar Íslands eru seljanlegri en t.d. bréf á tilboðsmarkaðnum. Hjá skuldabréfum skiptir mestu máli að vakt sé með bréfin því annars þarf viðkomandi að finna kaupandann sjálfur. - Vanskilaáhætta
Þegar verðbréf er ekki greitt á gjalddaga. - Tapsáhætta
Verðbréf tapast að hluta eða öllu leyti t.d. vegna gjaldþrota.
Vægi ofangreindra þátta er mismikið. Mesta áhættan er í gengisáhættu enda taka verðbréf breytingum daglega sem hefur áhrif á verðmæti þeirra. Gengisbreytingar hjá skuldabréfum eru töluvert frábrugðnar hlutabréfum. Það sem hefur mest áhrif á gengi skuldabréfa er meðallíftími undirliggjandi eigna og svo ávöxtunarkrafan sem markaðurinn gerir kröfu til. Gengi sjóðs með stuttan meðallíftíma bréfa sveiflast lítið á meðan gengi sjóðs með lengri meðallíftíma sveiflast meira. Þegar ávöxtunarkrafa hækkar leiðir það til lækkunar á gengi bréfa en til hækkunar ef ávöxtunarkrafan lækkar. Áhrifin af breytingum ávöxtunarkröfunnar eru því meiri eftir því sem meðallíftíminn er lengri, sem um leið eykur áhættuna.
Til að minnka sveiflurnar er horft á hverjar vaxtahorfur eru og í hvaða átt þróunin er. Þannig er hægt að lengja í sjóðum þegar vaxtalækkun er líkleg en stytta í sjóðum ef líkur eru á vaxtahækkunum. Hins vegar eru sjóðir misstórir að markaðsverði og því auðveldara fyrir minni sjóði að stytta eða lengja á meðan breytingar stærri sjóða taka lengri tíma og geta því minna varið sig gegn sveiflum. Jafnframt ber að nefna að erfitt getur reynst að sjá fyrir um vaxtabreytingar og því eðlilegt að töluverðar sveiflur geti orðið á gengi verðbréfasjóða við víðtækar breytingar á ávöxtunarkröfu skuldabréfa.
Það eru ákveðin þægindi fyrir fjárfesti að leita í verðbréfasjóði eða aðra sambærilega sjóði í stað þess að fjárfesta í einstökum bréfum. Fjárfestinn þarf ekki að hafa áhyggjur af stöðugum verðbreytingum á markaðnum heldur lætur sérfræðinga sjá um breytingar í eignasöfnum til að ná sem bestri ávöxtun. Þó ber að hafa í huga að á sama hátt og áhættudreifing dregur úr líkum á verulegi tapi hefur hún í för með sér að ekki er hægt að búast við jafn skjótfengnum gróða.
Framangreindar upplýsingar eiga einnig við um fjárfestingarsjóði en fjárfestingarsjóðir hafa víðtækari fjárfestingarheimildir og eru almennt áhættusamari en verðbréfasjóðir.
Fjárfestingarsjóðir eru starfsleyfisskylt form sjóða um sameiginlega fjárfestingu skv. lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða nr. 45/2020. Um fjárfestingarsjóði gilda aðrar reglur en um verðbréfasjóði að því er varðar fjárfestingarheimildir og innlausnarskyldu. Fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða eru rýmri skv. lögunum og geta því verið áhættusamari en fjárfestingarstefnur verðbréfasjóða. Fjárfestar eru hvattir til að hafa í huga þennan mun á fjárfestingarsjóðum og verðbréfasjóðum og kynna sér sérstaklega fjárfestingarstefnu sem gildir fyrir þá sjóði sem þeir eiga hlutdeildarskírteini í eða hyggjast fjárfesta í framtíðinni.