Stefnir Scandinavian Fund

Fyrir hverja?

  • Þá sem þekkja til áhættu tengdum hlutabréfasjóðum og geta sætt sig við sveiflur í gengi sjóðsins
  • Fjárfest er í hlutabréfum fyrirtækja á Norðurlöndum
  • Viðmið: MSCI Nordic vísitala
  • Hentar bæði einstaklingum og fyrirtækjum

Einungis er hægt að kaupa í sjóðnum með fjárfestingarhæfum gjaldeyri sbr. ákvæði laga um gjaldeyrismál nr. 87 frá 1992.

Reglur um gjaldeyrismál

Eignasamsetning

Ávöxtun

 Rekstrarform:     Verðbréfasjóður
 Stýring:   Stefnir hf.
 Sjóðstjóri  Guðjón Ármann Guðjónsson
 Gjaldmiðill:  EUR
 Stofnár:      2007
 Gengismunur:  2%
 Umsýsluþóknun:  1,65%
 Lágmarksfjárfesting:  10.000 kr. einstök kaup - 5.000 kr. í áskrift
 Viðskiptatími:  9:00 - 12:00
 Uppgjörstími:    3 virkir dagar
 Vörsluaðili:  Arion banki

Sjóðurinn er verðbréfasjóður skv. lögum nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Rekstrarfélag sjóðsins er Stefnir hf.



Sjóðurinn er ætlaður almenningi sem og fagfjárfestum, s.s. lífeyrissjóðum og fyrirtækjum, sem velja sér fjárfestingakosti sem fela í sér sjóði um sameiginlega fjárfestingu með dreifðu eignasafni verðbréfa og öðrum fjármálagerningum í rekstri og umsjón fagaðila skv. lögum og eftirliti um sem um slíkan sjóð gildir á hverjum tíma. Fjárfesting í hlutdeildarskírteinum sjóða um sameiginlega fjárfestingu er að jafnaði öruggari en þegar keypt eru einstök verðbréf þar sem sjóðir dreifa áhættu fjárfesta með kaupum á fleiri en einum flokki verðbréfa.



Öll viðskipti með fjármálagerninga, þ.m.t. hlutdeildarskírteini sjóðsins, eru áhættusöm. Ávöxtun hlutdeildarskírteina sjóðsins kann að sveiflast mjög frá einum tíma til annars. Þá getur verðmæti hlutdeildarskírteina getur rýrnað og fjárfestar tapað fjárfestingu sinni að hluta eða öllu leyti.



Vakin er athygli á því að þó að sjóðurinn muni að stærstum hluta samanstanda af hlutabréfum fyrirtækja sem tilheyra Skandinavíu, er sjóðnum heimilt að fjárfesta allt að 15% af eignum sínum í fyrirtækjum sem tilheyra Eystrasaltsríkjunum.

Áhættuflokkun

Stefnir hf. hefur skipt sjóðum sem það rekur í sjö flokka. Flokkunin byggist á mati á því hversu mikilla sveiflna í ávöxtun má vænta í framtíðinni, en flokkunin mælir aftur á móti ekki almenna áhættu við að fjárfesta í sjóðnum.

Einungis er hægt að kaupa í sjóðnum með fjárfestingahæfum gjaldeyri sbr 5.gr reglna um gjaldeyrismál 370/2010 frá 29. Apríl 2010.

Áhætta tengd fjármálagerningum

Margvísleg atriði geta valdið verðlækkun á fjármálagerningum sem sjóðurinn hefur fjárfest í og þar með á gengi hlutdeildarskírteina í sjóðnum, s.s. ófyrirséðir atburðir og almennt efnahagsástand. Einnig getur ný eða breytt löggjöf Alþingis haft áhrif á gengi hlutdeildarskírteina, s.s. breytingar á skattalögum eða á lögum um auðlindargjald í sjávarútvegi. Þá má og geta svokallaðrar seljanleikaáhættu, þ.e. áhættan á að ekki reynist unnt að selja verðbréf þegar vilji stendur til. Áhættan birtist bæði með þeim hætti að markaðurinn geti ekki tekið við því magni sem til stendur að selja þar sem kaupendur vantar, en einnig er verðmyndun oft með þeim hætti að verulegur munur er á kaup- og sölugengi og því næst ekki sá árangur við sölu sem vænst hafði verið. Því dreifðara sem safn verðbréfa er, því minni áhætta er almennt talin fólgin í því.

Afleiðunotkun

Sjóðurinn hefur heimild til að binda fé sitt í afleiðum samkvæmt þeim skilyrðum sem sett erum samkvæmt lögum nr. 128/2011, sbr. einkum 5. og 6. tl. 30. gr., 34. gr., og 42. gr. laganna. Viðskipti með afleiður geta dregið úr áhættu sjóðsins, s.s. endurfjárfestingaráhættu. Viðskiptin geta einnig virkað á svipaðan hátt og stöðutaka í viðkomandi fjármálagerningi og þannig aukið áhættu sjóðsins.



Afleiður sjóðsins geta verið í formi framvirkra samninga eða vilnana. Í tilviki framvirkra samninga skuldbindur sjóðurinn sig til þess að eiga viðskipti með fjármálagerninga á fyrirfram ákveðnu verði og tíma í framtíðinni. Þannig myndast skuldbinding í sjóðnum vegna þessara framtíðar viðskipta. Verðmæti framvirka samningsins sveiflast svo með breytingu á gengi undirliggjandi eignar og hefur þannig áhrif á innra virði sjóðsins. Í tilviki vilnana kaupir eða selur sjóðurinn rétt til þess að eiga viðskipti með fjármálagerninga á fyrirfram ákveðnu verði og tíma í framtíðinni. Kaupi sjóðurinn vilnun takmarkast áhætta sjóðsins við það verð sem hann greiddi fyrir vilnunina. Selji hann hins vegar vilnun, fær hann greitt fyrir söluna en skuldbindur sig jafnframt til að eiga viðskipti með undir-liggjandi fjármálagerninga skv. skilmálum vilnunarinnar.

Aðrar áhættur tengdar fjárfestingu í sjóðnum
  1. Markaðsáhætta vísar til þeirra áhrifa sem hugsanlegar breytingar á gengi fjármálagerninga getur haft á gengi sjóðsins. Fjármálagerningar í eðli sínu sveiflast í verði og getur gengi þeirra bæði hækkað sem og lækkað sem skilar sér í markaðsáhættu fyrir sjóðfélaga.
  2. Greiðsluáhætta. Þar sem sjóðurinn mun eiga, kaupa og selja fjármálagerninga af þriðja aðila er sú hætta fyrir hendi að kaupandi greiði ekki fyrir selda gerninga eða að seljandi afhendi ekki gerninga sem sjóðurinn hefur keypt.
  3. Vörslu- og uppgjörsáhætta. Rekstrarfélag sjóðsins felur vörslufyrirtæki vörslu allra fjármálagerninga sjóðsins. Sú áhætta er fyrir hendi að slíkir fjármálagerningar glatist vegna gjaldþrots vörsluaðila, vanrækslu vörsluaðila, misnotkun hans eða svika. Sú hætta er einnig fyrir hendi að mistök eigi sér stað við uppgjör sjóðsins.
  4. Frammistöðuáhætta. Markmið sjóðsins er að ná betri árangri en fyrirfram skilgreind viðmiðunarvísitala. Þar sem stýring sjóðsins telst virk getur árangur sjóðsins verið betri eða verri en áðurnefnd viðmiðunarvísitala og felur það í sér frammistöðuáhættu.
  5. Áhætta höfuðstóls. Fjármálagerningar í eðli sínu geta sveiflast í verði og höfuðstóll getur því rýrnað yfir skemmri eða lengri tíma vegna sveiflna á þeim fjármálagerningum sem sjóðurinn er fjárfestur í á hverjum tíma.
  6. Greiðslufallsáhætta. vísar til þeirra áhættu að útgefendur skuldaskjala sem sjóður hefur fjárfest í standi ekki í skilum á gjalddaga. Gjaldfallinn skuld sem ekki innheimtist hefur neikvæð áhrif á ávöxtun sjóðs. Öll skuldaskjöl í eigu sjóðs bera greiðslufallsáhættu sem er mismikil milli útgefanda. Greiðslufallsáhættu má t.d. meta með opinberum lánshæfismateinkunnum þ.s. við á.
  7. Ytri ástæður á borð við stríð, hryðjuverk og stjórnmálalegan óstöðugleika eða annað því tengt geta haft áhrif á gengi fjármálagerninga og telst því áhættuþáttur fyrir sjóðsfélaga.
Almennur fyrirvari verðbréfasjóða

Um verðbréfasjóði gilda að sumu leyti aðrar reglur en gilda um fjárfestingarsjóði skv. lögum nr. 128/2011, t.d. varðandi fjárfestingarheimildir og innlausnarskyldu. Fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða eru takmarkaðri skv. lögunum. Vakin er sérstök athygli á að almennt fylgir áhætta fjárfestingu í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða, t.d. getur fjárfesting rýrnað eða tapast að öllu leyti. Fyrri ávöxtun verðbréfasjóða gefur ekki vísbendingu um framtíðar ávöxtun þeirra.



Nánari upplýsingar um framangreint má nálgast í útboðslýsingu eða lykilupplýsingablaði sjóðsins á heimasíðu Stefnis. 



Með setningu laga nr. 55/2011 voru gerðar breytingar til bráðabirgða á lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, með síðari breytingum. Samkvæmt 5. tl. 16. mgr. ákvæðis laganna til bráðabirgða er tryggingavernd innstæðna verðbréfa- og fjárfestingarsjóða afnumin. Í lögunum kemur fram að með innstæðu er átt við inneign á reikningi í eigu viðskiptamanns hjá innlánsstofnun, að meðtöldum áföllnum vöxtum og verðbótum, og millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, sem innlánsstofnun ber að endurgreiða samkvæmt lögum og umsömdum skilmálum, og hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun. Lántökur innlánsstofnunar, eiginfjárreikningar, heildsöluinnlán og safnreikningar, aðrir en reikningar innlánsleiða vörsluaðila lífeyrissparnaðar, teljast ekki til innstæðna. Nánari upplýsingar um sjóðinn er að finna á www.tryggingarsjodur.is.



Vert er að benda á að samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 6. október 2008 eru „innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi tryggðar að fullu“. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er ekki kveðið á um gildistíma. Þá kom fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þann 3. febrúar 2009 að fyrri yfirlýsing væri í fullu gildi og að hún yrði ekki afnumin fyrr en hið nýja íslenska fjármálakerfi hefði sannað sig og þá yrði gefinn aðlögunartími.



Bent skal á að á Alþingi hefur verið lagt fram frumvarp til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sem gert er ráð fyrir að nemi lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta úr gildi. Verði það frumvarp samþykkt, eða annað slíkt, kann það hafa í för með sér frekari breytingar á núgildandi fyrirkomulagi um innstæðutryggingar. 

Rekstrarfélag sjóðanna er Stefnir hf., sem er sjálfstætt dótturfélag Arion banka með starfsleyfi sem rekstrarfélag verðbréfasjóða

Einungis er hægt að kaupa í Stefnir Scandinavian Fund með fjárfestingahæfum gjaldeyri sbr 5.gr reglna um gjaldeyrismál 370/2010 frá 29. Apríl 2010.

Reglur um gjaldeyrismal

Helsti söluaðili sjóða Stefnis er Arion banki, hægt er að eiga viðskipti með sjóði í næsta útibúi eða í gegnum Netbanka. Sérfræðingar verðbréfa- og lífeyrisþjónustu Arion banka veita upplýsingar um sjóðina í síma 444-7000 og fyrirspurnir má senda á verdbrefathjonusta@arionbanki.is.

Við bendum á að í netbanka Arion banka er viðskiptavinum veittur 25% afsláttur af gengismun sjóða Stefnis. Enginn gengismunur er í Stefni – Ríkisvíxlasjóð og Stefni – Lausfjársjóð. 

Frekari upplýsingar um kaup í sjóðum má finna í spurt og svarað um sjóði

Upplýsingar um aðra söluaðila má finna hér.